Friday, November 7, 2008

Ávarp formanns



Ágætu sýningargestir!

Velkomin á fyrstu SCARTA (Scandinavia Art Contest for Amateurs) keppnina á Íslandi.

Það er sérstök en jafnframt gleðileg tilviljun að keppnin fer fram einmitt nú, þegar skyldmenni okkar, eyþjóðin stolta, berjast í bökkum og allt virðist þeim upp í mót. Á tímum sem þessum ber okkur að styrkja böndin og standa saman, og rétt eins og frændþjóðirnar rétta ykkur nú hjálparhönd hver af annarri, fagna ég af heilum hug þátttöku Íslands í ár. Verið hjartanlega velkomin.

Samkvæmt reglum keppninnar var auglýst eftir verkum snemmvors og að gefnu tilefni var ákveðið að hafa yfirskrift hennar í ár Ólympíuleikar. Margar skemmtilegar hugmyndir bárust og var dómnefnd, skipuð af yfirstjórn SCARTA, falið að velja verkin sem keppa skyldu til úrslita. Þau verk eru nú til sýnis, og þann 23. nóvember verður kunngjört hvaða listamaður ber sigur úr býtum og tekur þátt fyrir Íslands hönd í aðalkeppninni sem haldin verður í Tromsö þann 26. janúar á næsta ári.

Fyrir utan þann mikla heiður að keppa til úrslita fær íslenski sigurvegarinn 1 milljón króna í verðlaun. Sigurvegari lokakeppninnar fer hins vegar heim með andvirði 8 milljóna íslenskra króna (skv. gengistölum norska seðlabankans).

Það er eðli góðrar listar að þekkja ekki sín takmörk. Óstýrilát flæðir hún áfram, óháð öllum landamærum og stöðvar ekki framgang sinn fyrr en hún hefur náð áfangastað sínum, fyrir augum þeirra sem njóta vilja. Það er skoðun mín að list hafi lækningarmátt. Hún er huggun gegn harmi, óvéfengjanleg sönnun þess að hvað sem á dynur, þá hefur mannskepnan alltaf þessa uppsprettu að leita til, sköpunarlindin er ávallt til staðar, hvort sem er til að sefa hrakin hjörtu, eða blása eldmóði í brjóst.

Ég óska íslensku þjóðinni alls hins besta.

Petri Heikkilä,
formaður undirbúningsnefndar SCARTA.

No comments: