Friday, November 7, 2008

Ávarp formanns



Ágætu sýningargestir!

Velkomin á fyrstu SCARTA (Scandinavia Art Contest for Amateurs) keppnina á Íslandi.

Það er sérstök en jafnframt gleðileg tilviljun að keppnin fer fram einmitt nú, þegar skyldmenni okkar, eyþjóðin stolta, berjast í bökkum og allt virðist þeim upp í mót. Á tímum sem þessum ber okkur að styrkja böndin og standa saman, og rétt eins og frændþjóðirnar rétta ykkur nú hjálparhönd hver af annarri, fagna ég af heilum hug þátttöku Íslands í ár. Verið hjartanlega velkomin.

Samkvæmt reglum keppninnar var auglýst eftir verkum snemmvors og að gefnu tilefni var ákveðið að hafa yfirskrift hennar í ár Ólympíuleikar. Margar skemmtilegar hugmyndir bárust og var dómnefnd, skipuð af yfirstjórn SCARTA, falið að velja verkin sem keppa skyldu til úrslita. Þau verk eru nú til sýnis, og þann 23. nóvember verður kunngjört hvaða listamaður ber sigur úr býtum og tekur þátt fyrir Íslands hönd í aðalkeppninni sem haldin verður í Tromsö þann 26. janúar á næsta ári.

Fyrir utan þann mikla heiður að keppa til úrslita fær íslenski sigurvegarinn 1 milljón króna í verðlaun. Sigurvegari lokakeppninnar fer hins vegar heim með andvirði 8 milljóna íslenskra króna (skv. gengistölum norska seðlabankans).

Það er eðli góðrar listar að þekkja ekki sín takmörk. Óstýrilát flæðir hún áfram, óháð öllum landamærum og stöðvar ekki framgang sinn fyrr en hún hefur náð áfangastað sínum, fyrir augum þeirra sem njóta vilja. Það er skoðun mín að list hafi lækningarmátt. Hún er huggun gegn harmi, óvéfengjanleg sönnun þess að hvað sem á dynur, þá hefur mannskepnan alltaf þessa uppsprettu að leita til, sköpunarlindin er ávallt til staðar, hvort sem er til að sefa hrakin hjörtu, eða blása eldmóði í brjóst.

Ég óska íslensku þjóðinni alls hins besta.

Petri Heikkilä,
formaður undirbúningsnefndar SCARTA.

Saga keppninnar

Þótt SCARTA keppnin sé nú haldin í fyrsta sinn á Íslandi, er hún langt því frá ný af nálinni. Sögu hennar má rekja allt aftur til ársins 1950, þegar norski myndlistarmaðurinn Ingemar Hansen, sem keppt hafði fyrir Noregs hönd í myndlist á Ólympíuleikunum 1948, fékk styrk frá Norðurlandaráði til að „taka upp kyndilinn og halda heiðri listarinnar á lofti, nú þegar Alþjóðlega Ólympíunefndin (IOC) hefur ýtt henni í skuggann,“ eins og hann orðaði það sjálfur. Þar vísaði hann til þeirrar ákvörðunar að taka allar keppnir í listum af dagskrá leikanna.

Hansen var mikill Ólympíusinni og skrifaði margar greinar um mikilvægi Ólympíuleikanna í samfélagi þjóða. Þar viðraði hann hugmyndir sínar um hvernig leikarnir gætu stuðlað að heimsfriði, ef rétt væri að staðið. „Hvers vegna ekki að slíðra sverðin og gera upp sakir á heiðarlegan og heilbrigðan hátt?“ segir hann á einum stað. Málstaður hans náði þó aldrei að festa rætur og var Hansen af mörgum uppnefndur einfaldur bjartsýnismaður, sem skorti alla vitneskju um utanríkismál.

SCARTA keppnin náði hins vegar að vaxa og dafna. Hver Norðurlandaþjóðin af annarri bættist með tímanum í hópinn, og hafa þær allar, fyrir utan Ísland, tekið þátt undanfarin ár. Í tilefni af því að Íslendingar séu nú loks með, stóð til að ekkja Ingemars Hansen, Charlotte Hansen, yrði viðstödd opnunina í Norræna húsinu, en hún varð því miður að afþakka boðið, af heilsufarsástæðum. Hún sendi í staðinn hugheilar kveðjur og ítrekaði ánægju sína, þessi stund hefði glatt mann hennar mikið, en Ingemar Hansen lést þann 17. febrúar 2003.

Thursday, November 6, 2008

Keppt í listum á Ólympíuleikum



Keppnir í listum voru hluti af Ólympíuleikunum frá árunum 1912-1948. Verðlaun voru veitt í fimm greinum, þar sem listamenn unnu á mismunandi hátt út frá þemanu íþróttir. Leyfilegt var að hver keppandi sendi inn fleiri en eitt verk og því gat það hent að sami listamaðurinn ynni gull, silfur og bronsverðlaun öll í senn. Þá má að gamni geta þess að tvö dæmi eru um keppendur sem unnu bæði til verðlauna í íþróttum og listum.
Keppnisgreinar voru eftirfarandi: arkitektúr, bókmenntir, tónlist, málverk og skúlptúragerð. Til stóð á tímabili að bæta við dansi, kvikmyndagerð, ljósmyndun og leiklist, en úr því varð þó ekki.
Árið 1954 var endanlega tekin ákvörðun um að leggja þennan hluta leikanna niður, þegar í ljós kom að þjóðir sendu æ oftar lærða listamenn, þótt svo að reglur kvæðu á um að einungis áhugafólk hefði keppnisrétt.

Monday, November 3, 2008

Miðasala

Miðasala er í síma 867-8640, nöfn gesta og hæð þeirra.

Opnun

Opnun á afrakstri SCARTA 2008 (Scandinavian Amateur Art Contest) mun verða næstkomandi föstudag kl. 20:00. Í vikunni munu birtast umfjallanir um keppendur sem taka þátt í lokakeppninni.