Thursday, November 6, 2008

Keppt í listum á Ólympíuleikum



Keppnir í listum voru hluti af Ólympíuleikunum frá árunum 1912-1948. Verðlaun voru veitt í fimm greinum, þar sem listamenn unnu á mismunandi hátt út frá þemanu íþróttir. Leyfilegt var að hver keppandi sendi inn fleiri en eitt verk og því gat það hent að sami listamaðurinn ynni gull, silfur og bronsverðlaun öll í senn. Þá má að gamni geta þess að tvö dæmi eru um keppendur sem unnu bæði til verðlauna í íþróttum og listum.
Keppnisgreinar voru eftirfarandi: arkitektúr, bókmenntir, tónlist, málverk og skúlptúragerð. Til stóð á tímabili að bæta við dansi, kvikmyndagerð, ljósmyndun og leiklist, en úr því varð þó ekki.
Árið 1954 var endanlega tekin ákvörðun um að leggja þennan hluta leikanna niður, þegar í ljós kom að þjóðir sendu æ oftar lærða listamenn, þótt svo að reglur kvæðu á um að einungis áhugafólk hefði keppnisrétt.

No comments: