Þótt SCARTA keppnin sé nú haldin í fyrsta sinn á Íslandi, er hún langt því frá ný af nálinni. Sögu hennar má rekja allt aftur til ársins 1950, þegar norski myndlistarmaðurinn Ingemar Hansen, sem keppt hafði fyrir Noregs hönd í myndlist á Ólympíuleikunum 1948, fékk styrk frá Norðurlandaráði til að „taka upp kyndilinn og halda heiðri listarinnar á lofti, nú þegar Alþjóðlega Ólympíunefndin (IOC) hefur ýtt henni í skuggann,“ eins og hann orðaði það sjálfur. Þar vísaði hann til þeirrar ákvörðunar að taka allar keppnir í listum af dagskrá leikanna.
Hansen var mikill Ólympíusinni og skrifaði margar greinar um mikilvægi Ólympíuleikanna í samfélagi þjóða. Þar viðraði hann hugmyndir sínar um hvernig leikarnir gætu stuðlað að heimsfriði, ef rétt væri að staðið. „Hvers vegna ekki að slíðra sverðin og gera upp sakir á heiðarlegan og heilbrigðan hátt?“ segir hann á einum stað. Málstaður hans náði þó aldrei að festa rætur og var Hansen af mörgum uppnefndur einfaldur bjartsýnismaður, sem skorti alla vitneskju um utanríkismál.
SCARTA keppnin náði hins vegar að vaxa og dafna. Hver Norðurlandaþjóðin af annarri bættist með tímanum í hópinn, og hafa þær allar, fyrir utan Ísland, tekið þátt undanfarin ár. Í tilefni af því að Íslendingar séu nú loks með, stóð til að ekkja Ingemars Hansen, Charlotte Hansen, yrði viðstödd opnunina í Norræna húsinu, en hún varð því miður að afþakka boðið, af heilsufarsástæðum. Hún sendi í staðinn hugheilar kveðjur og ítrekaði ánægju sína, þessi stund hefði glatt mann hennar mikið, en Ingemar Hansen lést þann 17. febrúar 2003.
Friday, November 7, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment